fimmtudagur, ágúst 13, 2009

Hjúskaparmálið sem er í blöðunum

Ég hef yfirleitt tekið því með fyrirvara þegar fólk kemur með forsjármálin sín í fjölmiðla. Að baki slíkum málum er oft langt og flókið ferli persónulegra deilna milli fólks, hvoru um sig þykir á sér troðið og að hitt sé miskunnarlaus Grýla. Sem er eðlilegt, því hjónaskilnaður má vera svæsinn ef til aðfarargerðar kemur, eins og gerði í máli Borghildar, sem nú nýtur m.a. stuðnings fésbókarliða. Það er erfitt að taka afstöðu með og á móti fólki sem maður þekkir ekkert persónulega og eina vitneskja sem maður hefur um framgang mála er frá öðrum málsaðilanum, sem er langt frá því að vera hlutlaus.

Ég ákvað því að lesa úrskurðinn á heimasíðu Hæstaréttar. Það er auðvelt að finna hann, því í skilnaðarmálum er alltaf M gegn K eða K gegn M og í fjölmiðlum hafði komið fram að Dögg Pálsdóttir hrl. er lögmaður M og Sveinn Andri Sveinsson lögmaður K. Ég fann hann því hér. Þetta munu ekki vera neinir aukvisar í faginu sem eru fengnir í þetta mál. Ég held að af úrskurðinum sé ljóst að gagnrýnin sem Sveinn Andri Sveinsson sætir af hálfu konunnar, þ.e. gerðarþola í úrskurðinum, eigi við nokkuð sterk rök að styðjast.
Héraðsdómari segir beinlínis í úrskurðinum að hann (Sveinn Andri altso) hefði getað byggt málið á ákv. undanþáguákvæði í lögum og þá hugsanlega fengið aðfarargerðina dæmda ólöglega. NB. Það er ekki víst, en hugsanlegt. Því ætti það að vera haldbær ástæða fyrir lögmann að líta til hennar. Það hafi hann ekki gert og þar með eigi gerðarbeiðandi óskoraðan rétt til að krefjast afhendingar á börnunum með beinni aðfarargerð. Það liggur því beint við að álykta að Sveini Andra hafi fatast flugið. Maður hefði haldið að hagsmunir barnanna ættu að vega þyngst í svona málum og aðfarargerð með þessum hætti hefði ég haldið að teldi til verulegs rasks á högum barnanna. Lagaumhverfi á Íslandi er aukinheldur afskaplega fjandsamlegt feðrum í málum sem þessum. Þetta hefði því hugsanlega verið skítur á priki fyrir hann að taka þetta mál í nefið. Honum þykja refsimál örugglega skemmtilegri en aðfarargerðir og hjúskaparmál.

Sjáið þið bara sjálf, þetta stendur þarna:

"Eins og fram kemur í málsgögnum fór gerðarþoli með börnin til Íslands þann 10. janúar 2008. Beiðni um afhendingu barnanna, dagsett 10. febrúar 2009, var móttekin af Héraðsdómi Reykjaness þann 11. febrúar 2009. Þá var því liðið meira en eitt ár frá því að börnin voru flutt á brott og hald gerðarþola hófst. Hefði því getað komið til skoðunar hvort undanþáguákvæði 1. mgr. 12. gr. laganna kæmi til álita, en samkvæmt því er heimilt að synja um afhendingu barns ef meira en eitt ár er liðið frá því að barnið var flutt á brott eða hald hófst þar til beiðni um afhendingu er móttekin hjá héraðsdómi, enda hafi barnið aðlagast nýjum aðstæðum. Af hálfu gerðarþola hefur ekki verið byggt á þeirri málsástæðu, hvorki í greinargerð né í munnlegum málflutningi. Af hálfu gerðarþola var ekki reynt að koma þessari málsástæðu að í málinu. Með hliðsjón af því að dómari getur ekki farið út fyrir kröfur aðila og málsástæður og þess að sönnunarfærsla hefur ekki farið fram með tilliti til ákvæðisins varðandi það hvort börnin hafi aðlagast nýjum aðstæðum getur dómurinn ekki beitt þessari synjunarheimild. Ber til þess að líta að sönnunarbyrði fyrir því að skilyrðum ákvæðisins um aðlögun barns sé fullnægt hvílir á þeim sem mótmælir afhendingu barns.
Samkvæmt framansögðu er að niðurstaða dómsins að gerðarbeiðandi eigi óskoraðan rétt til að krefjast afhendingar á sonum málsaðila og því beri að fallast á að drengirnir verði teknir með beinni aðfarargerð úr umsjá gerðarþola og afhentir honum hafi gerðarþoli ekki látið þá sjálf í umsjá gerðarbeiðanda í Bandaríkjunum eða á annan hátt stuðlað að för drengjanna til gerðarbeiðanda innan sex vikna frá uppkvaðningu úrskurðar þessa."

Engin ummæli:

Skrifa ummæli