fimmtudagur, desember 31, 2009

Litið um öxl

Hver man ekki hin fleygu orð úr áramótaskaupinu 1985: Það er við hæfi um áramót að líta aðeins um öxl... (það þarf látbragð að fylgja svo hægt sé að klára þennan brandara, þeir sem muna hlæja með, enda eðalskopskyn á ferðinni).

Árið 2009 hófst á því að ég varð óskaplega syfjuð upp úr kl. 00:00 á nýársnótt. Fór heim, reyndi að sýna smá lit, las hálfa blaðsíðu í bók, horfði á hálfa mínútu af einhverri sjónvarpsmynd, gafst svo upp fyrir svefninum og fór að sofa. Ég er sjaldan latari í seinni tíð en um áramót, á 17. júní og á menningarnótt.
Á nýársdag komu Sara og Silke í heimsókn, sitt í hvoru lagi, enda þekkjast þær ekki innbyrðis, en í ljós kom að þessar ágætu vinkonur mínar búa næstum því á sama stað í Sviss. Vinafundir mættu almennt vera fleiri í hversdagslífinu, voru svo alltof fáir árið 2009 eins og svo mörg önnur ár.
Mamma rak inn nefið áður en hún lagði land undir fót og heimsótti Kristínu Örnu til Nýja Sjálands, hvar hún dvaldi í heilan mánuð. Mikið sem mér fannst það dásamlegt. Og það skipti engum togum, Kristín Arna smitaði mömmu af flakkdellu og þær mæðgur eru á leiðinni til Suður-Ameríku í janúar næstkomandi, nánar tiltekið eftir 4 daga. Mér skilst Indland vera á dagskrá fyrir árið 2011.
Vanagangurinn gekk af göflunum og óð yfir allt fram á vor. Sigurjón Torfi varð tveggja ára í mars og undirrituð fullra 28 ára í apríl. Sú veiki, þ.e. 28 ára veikin, var ekki alveg eins skæð og 27 ára veikin. Mér varð mjög illt við að verða 27 ára, en virðist hafa verið farin að sætta mig við að ég bremsta ekki tímann þrátt fyrir að vera orðin 25 og hvorki komin með BA próf né farin að koma auga á hina formúleruðu beinu braut sem einhver ákvað að allir ættu að ganga eftir. Háskóli, íbúð, mamma, pabbi, börn og bíll. Háskólinn er í vinnslu þótt ég hafi aldur til að vera komin í doktorsnám en er bara rétt hálfnuð með BA, íbúðin komin og í henni geymi ég altént pabba með börn þó svo ég eigi ekkert í þeim og svo er jú bíll á bílastæðinu. Hak gæti komist við öll atriðin á listanum um árið 2013 ef vanagangurinn verður mér ekki ofviða. Ég get þó alltaf týnt nokkur atriði til, ég kann t.d. að prjóna og sauma út, elda og laga kaffi af mikilli ástríðu. Æðsta óskin er þó að geta eytt lengri stundum en fram til þessa með píanóinu. Kannski það sé efni í áramótaheit fyrir kvöldið. Sjáum til.
Kristín Arna heiðurssystir mín útskrifaðist sem iðnhönnuður frá Victoria University í Wellington í maí. Fljótlega upp úr því hófum við undirbúning að sýningunni hér.e sem opnuð var samtímis í Skaftfelli á Seyðisfirði og fyrrnefndum háskóla í Wellington. Sjónverkin voru hennar hugvit, tónverkið mitt og saman náði þetta allt saman að mynda heild. Þetta var tvímælalaust hápunktur ársins 2009 fyrir mig.
Vanagangurinn hófst svo á ný í september, en ég stakk hann af í 10 daga og skellti mér í stórfína ferð með mömmu til Berlínar. Þar hittum við Kristínu Örnu og hún varð samferða okkur heim.
Síðasti forfaðir minn kvaddi hið jarðneska líf í október, nú á ég bara formæður á lífi. Þrjár kjarnakonur sem gott er að eiga að. En það líður ekki sá dagur að ég hugsi ekki til karlleggsins og ylji mér við minningarnar. Ég var nú reyndar svo lánsöm að fá að kynnast tveimur langömmum og einum langafa sem einnig gáfu mér einstakt veganesti í minningapokann.
Von er á vanaganginum mánudaginn 4. janúar, enn og aftur til langdvalar. Nákvæmlega núna er ég nákvæmlega hálfnuð með námið í Listaháskólanum, hvar ég kann afar vel við mig. Það má nefnilega ekki skilja þetta sem svo að ég vilji finna vanaganginn í fjöru. Þvert á móti. Ég kann ágætlega við hann og tek honum almennt fagnandi. En það er alltaf háð því að hann skreppi frá með reglulegu millibili. Það er með þetta eins og allt annað, jafnvægis er þörf. Jólafríið var kærkomið, en vanagangurinn má koma þegar hann kemur. Ég er aldrei alveg tilbúinn fyrir hann eftir jólafrí því sængin er svo fjarska hlý. En ég venst honum. Melankólía er líka við hæfi um áramót, hún er ekkert slæm í hæfilegu magni.

Ég óska öllum vinum mínum og velunnurum innilega gleðilegs nýs árs sem ég hef á tilfinningunni að verði ofurár. Þjóðfélagsumræðan má halda áfram hvernig sem er, það verður alltaf eitthvað gargan í kringum hana. Ég ætla að vera í stuði árið 2010.

1 ummæli: