miðvikudagur, janúar 05, 2011

Uppvakning

Eftir þó nokkra umhugsun hef ég ákveðið að vakna upp af bloggsvefninum langa. Var ekki bloggið leið nútímakonunnar til að finna sig? Ég er a.m.k. aftur tekin til við að skrifa um sjálfa mig. Hvimleiður ávani? Ojæja.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir samúðarkveðjurnar sem ég fékk þegar hún Vinda mín sofnaði svefninum sínum langa fyrir um það bil ári síðan. Það er merkilegt hvað dýr geta átt mikið í manni. Þessa dagana deili ég heimili með tveimur köttum sem eiga mig með húð og hári.

Nú og svo er komið nýtt ár og við hæfi að óska gleðilegs og farsæls.

Janúar í fyrra hófst með nokkurra vikna námskeiði í skólanum sem bar heitið Samtal og margir kvörtuðu sáran yfir. Mér þótti það hins vegar bara ljómandi skemmtilegt, var í hóp með arkitektar-, hönnunar-, leiklistar-, dans- og tónlistarnemum undir handleiðslu Steinunnar Knútsdóttur, en auk þess að hafa verið í góðum hóp þykir mér Steinunn hinn mesti snillingur. Námskeiðið var galopið og þar af leiðandi stresslaust og kennt í hugmyndahúsinu sem selur miklu betra kaffi en mötuneytið á Sölvhólsgötunni (að vísu margfalt dýrara verði, en eins og við vitum öll er lífið of stutt fyrir vont kaffi). Þegar þessu námskeiði lauk og margir fóru að kvarta sáran yfir tilgangsleysi þess fór ég að velta fyrir mér tilgangi og tilgangsleysi skóla almennt. Er námskeið tilgangslaust ef það felur ekki í sér skil á lokaverkefni eða lokapróf? Eða er maður orðinn svona skólamengaður að maður getur ekki notið þess að sitja námskeið ef það felur ekki í sér einhvers konar verkefnavinnu eða eitthvað skilgreint lokamarkmið? Bara svona pæling út í loftið. Klúður skólans í þessum efnum var það sama og venjulega, námskeiðið var skylda og "átti" ekki að stangast á við önnur verkefni en gerði það samt, sem olli jú nokkrum auka frústrasjónum, en það er samt vert að velta þessu fyrir sér.
Samhliða þessu stresslausa skemmtinámskeiði og eðalkaffidrykkju í Hugmyndahúsinu var ég ein taugahrúga fram eftir nóttum við að ljúka tónverki sem Duo Harpverk flutti á tónleikum í Norræna húsinu undir lok mánaðarins. Mér er enn lífsins ómögulegt að gera nokkuð nema svefnlaus og um það bil yfirum af henni allra síðustu stundu sem aldrei er langt undan. Hroðalega erfiðar fæðingar alltaf. En einhvern veginn sleppur allt fyrir horn.

Ég er helst á því að árið hafi einmitt náð hápunkti um mánaðarmótin janúar-febrúar hvað persónuleg afköst varðar. Auðvitað hafði maður svo sem sitthvað fyrir stafni, en mín bíður að æfa mig í að setja mín eigin verkefni í forgang.

Í huganum er ég komin til útlanda, nokkrar skólaumsóknir eru í vinnslu. Eitt krúsjalt skref stendur þó eftir í millitíðinni og það er að útskrifast úr skólanum sem ég er víst ennþá í. Ég hef enn ekki fundið neitt sem slær á lokaverk-kvíðann. Ég byrja í dag. Þakka fyrir að það er verið að vinna með loftbor í sameigninni sem rekur mig út á Þjóðarbókhlöðu að vinna.

Ég kveð að sinni,

1 ummæli:

  1. fagna endurvakningu bloggsins. er sjálf að reyna.. með misjöfnum árangri þó.

    SvaraEyða