mánudagur, mars 26, 2007

In memoriam

Andreas Ohlsen, organisti, semballeikari, píanóleikari og kennari í Hamborg er fallinn frá.

Lang lang lang lang langsamlega besti píanókennari sem ég hef haft, að öðrum fullkomlega ólöstuðum. Fyrsta skóladaginn minn í Hamborg 1997 gaf enskukennarinn sig á tal við mig og fyrir einhverja tilviljun kom ég því að í samræðum okkar, að ég væri að leita að píanókennara. Hún sagðist þekkja góðan kennara og það gerði hún. Hún kom mér í samband við Andreas, eldri mann sem starfaði aðallega sem organisti í kirkju, en tók yfirleitt að sér 5-8 nemendur á ári. Ég er rík og heppin manneskja að hafa komist að hjá honum. Honum þótti stórmerkilegt að vera kominn með útlending í stofuna sína, þar sem bæði stóð Steinway flygill og semball. Hann talaði enga ensku, svo fyrstu vikurnar fór kennslan fram með handapati og tungumáli tónlistarinnar, en þegar á leið og þýskan mín fór að koma til, urðum við góðir vinir. Hann lét mig aldrei borga nema fyrir einn klukkutíma, en kenndi mér iðulega í 2-3. Hann gaf mér allar nótnabækur sem hann vildi að ég ætti og ljósritaði allt fyrir mig án þess að taka nokkrum sinnum við auka greiðslu fyrir viðvik eða kostnað. Konan hans tók alltaf á móti mér með rjúkandi tebolla þegar ég kom og á aðventunni laumaði hún að mér sneið af heimabökuðu Stollenbrauði með því. Þau voru eins og amma mín og afi. Stórkostlegir tónlistarmenn, bæði tvö, bestu kennarar og bestu gagnrýnendur sem nemandi getur hugsað sér. Hann bauðst til að hjálpa mér við að komast inn Hamburger Musikhochschule. Hann bauð mér að búa hjá sér meðan á náminu stæði. Hann vildi allt fyrir mig gera...

...en kjáninn ég sagði nei, takk. Endaði á Íslandi og hef hjakkað í sama farinu æ síðan.

Með tárin í augunum og kökkinn í hálsinum sit ég nú og horfi enn einu sinni framan í stærstu mistök sem ég hef gert um ævina. Að koma heim aftur.

Ég var alltaf á leiðinni út aftur í tíma til hans, en aldrei varð neitt af því og nú mun aldrei neitt verða af því. Ég kaus frekar að vera Íslendingur en Þjóðverji. Ég kaus að gerast þræll hins lútherska vinnusiðgæðis. Gerði mér vonir um að ég kæmi mér einhvern tíma út aftur.

Hugur minn er hjá yndislegu fjölskyldunni hans, ekkju hans, börnum og undursamlega músíkölsku barnabörnum sem sungu stef úr Mozartsónötum meðan þau léku sér að bílum á stofugólfinu.

Blessuð sé minning Andreasar Ohlsen.

6 ummæli:

  1. Falleg minning. Ég samhryggist.

    SvaraEyða
  2. Nafnlaus11:12 e.h.

    Hún er ógleymanleg ferðin okkar Kristínar Örnu þegar við komum um sumarið að "sækja þig". ALLIR voru svo yndislegir. Píanókennarinn og konan hans buðu okkur til sín, á tónleika heima í stofu. Þau tóku svo notalega á móti okkur mæðgum. Það var svo gaman að fylgjast með samspilinu milli ykkar Adreasar. Greinilegt að kærleikurinn milli ykkar allra var gagnkvæmur. Mundu, elskan mín, að: Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu aftur hug þinn og þú munt sjá að þú grætur vegna þess sem var gleði þín.
    Mamma

    SvaraEyða
  3. Samhryggist thér innilega

    SvaraEyða
  4. Ég samhryggist. En ég tek undir með mömmu þinn, minningar um svona fólk gera líf okkar ríkara.

    SvaraEyða
  5. ég samhryggist þér. það er svo grátlegt að sjá á eftir fólkinu sem maður hefði getað lært svo miklu meira af.

    SvaraEyða
  6. Ég þakka ykkur öllum hlýjar og fallegar kveðjur. Þegar svo rifjast upp fyrir manni að heimurinn er stútfullur af svona yndislegu fólki eins og ykkur er erfitt að sitja bara og skæla.

    SvaraEyða