Ég ákvað fyrir um það bil tveimur árum að fá mér vildarkreditkort til að komast ókeypis til útlanda öðru hvoru. Reglulega fæ ég svo sendan póst frá Flugleiðum þar sem mér er tilkynnt um frábær tilboð til útlanda, flugfarið á aðeins nokkra tugi þúsunda vildarpunkta. Ég hef frá upphafi safnað mér saman um 10000 vildarpunktum og mér sýndist það á haustdögum árið 2006 tæplega duga fyrir tveimur aðgöngumiðum á Airwaves.
Þess vegna sit ég alltaf bara heima hjá mér og læt mig dreyma um utanlandsferðir og fleiri vildarpunkta. Mér fannst þetta orðið hálfósanngjarnt og ákvað því að grennslast fyrir um hvar maður ætti að versla til að safna fleiri vildarpunktum. Þá skildi ég af hverju ég á enga vildarpunkta, en furða mig jafnmikið á því hvernig fólki tekst að safna sér þeim. Þarna voru fyrirtæki á borð við Argentína steikhús, staður sem ég hef aldrei komið inn á, ljósmyndastofur, gardínubúðir, gleraugnabúðir og önnur eins fyrirtæki sem nokkuð öruggt er að maður heimsækir ekki mjög oft. Mér dettur amk ekki til hugar að fara að venja komur mínar í passamyndatöku, bara til að safna vildarpunktum.
Það rann því upp fyrir mér áðan að mér eru engir aðrir vegir færir til útlanda aðrir en að safna mér fyrir flugmiða með gömlu aðferðinni, því samkvæmt auglýsingapósti Flugleiða verð ég hugsanlega komin með nóg fyrir flugfari aðra leiðina til Berlínar eftir önnur tvö ár ef ég verð nógu dugleg að versla mér gardínur hjá Z-brautum í Faxafeni og fara út að borða á Argentínu.
Og svo þarftu að passa þig á að punktarnir fyrnast eftir ákveðinn árafjölda! En þú getur notað þá upp í flugmiða og það er líka hægt að nota þá í innanlandsflugi - t.d. upp í flugmiða til Egilsstaða.
SvaraEyðaJá. Mæli með ferðalögum innanlands.
SvaraEyðaÚtlönd eru bara fyrir útlendinga.
þú verður bara að vera dugleg að safna svo þú getir komið reglulega í heimsókn til mín :)
SvaraEyðaps. ertu ekki orðin risastórasystir???
Krítarkortið þarf að vera í daglegri og stöðugri notkun til að það safnist nógu margir punktar fyrir ferð fram og til baka Reykjavík - Egilsstaðir. Jafnvel eyðsluklóin ég næ því varla einu sinni á ári að fara hér á milli fyrir punktana.
SvaraEyðaNei, gæska, það er bara gamla aðferðin - sparibaukur.