þriðjudagur, apríl 10, 2007

Páskapistill

Þá hef ek snúið heim úr dásamlegu fríi. Hélt ásamt betri helmningnum á vit óvissunnar á hádegi síðastliðins laugardags eftir að hafa etið og drukkið svo sem við gátum í okkur látið hjá frændfólkinu á Sólvallagötunni. Kjartan Ísak átti afmæli og við gáfum honum gommu af Andrési önd. Hann sagði að það væri geðveikt. Þá var tilganginum náð. Iðunni, systur hans, fannst bókin Iðunn og eplin samt miklu meira spennandi.
Fyrsti áningastaður frísins var að Landnámssetrinu í Borgarnesi, hvar við skoðuðum stórskemmtilegar sýningar um landnámið og Egil Skalla-Grímsson, kaffi og kökur á eftir.
Svo héldum við sem leið lá á Hótel Búðir. Þar gistum við þrjár nætur, átum á við fjóra fíla, skoðuðum það sem hægt var af Snæfellsnesi þegar veður leyfði og höfðum það þess á milli ákaflega náðugt. Fundum fína sundlaug og fínt kaffihús á Stykkishólmi, skemmtilegt fjöruveitingahús á Hellnum, en toppurinn var að sjálfsögðu þegar jökullinn loksins tók ofan fyrir okkur. Við vorum ekki of heppin með veður, en þeim mun heppnari með allt annað.
Í bakaleiðinni fengum við kaffi hjá Helgu og fjölskyldu á Hvanneyri og skriðum svo heim. Rigguðum upp sushi, rjómalagaðri ekta-aspassúpu og lasagne og fengum Völund til að hjálpa okkur að hesthúsa öllum herlegheitunum. Og núna liggjum við uppi í sófa með tærnar upp í loft. Venjulegur dagur á morgun. Ljúfsárt. Soldið eins og lýsi.

Um næstu helgi er ég búin að panta mér pláss í söng-workshop, sem myndi væntanlega útleggjast á íslensku söngvinnubúðir, á Selfossi með Kristjönu Stefánsdóttur. Ég er samt ekki búin að velja mér lag. Tillögur vel þegnar í formi kómhendna... megi sá sem er með tillögu rétta upp kómhönd.

Ég er að byrja að kenna á fimmtudaginn í Nýja Tónlistarskólanum og held því áfram út önnina. Svo komst það á hreint á dögunum að ég kem til með að fá 50% stöðu í Tónmenntaskólanum næsta vetur meðan Jónas Sen gerir víðreist um heiminn í félagi við Björk og blásarakonur. Þar með hlýt ég að vera á barmi heimsfrægðar, þar sem ég er forfallakennari píanóleikarans sem túrar með heimsfrægum..... eh... hemm... hvað sagði maðurinn aftur, maðurinn þarna með vitið?? Best að vera með báða fætur á jörðinni?? En hvað sem því líður, þá er ég þar með hætt öllum frílönsum í bili. Kem ekki til með að sakna bókhaldsins.

Mér hefur verið hugsað til þess hve illa gengur í jákvæðnisþerapíunni. Þetta sem ég skrifaði hér á undan var allt mjög jákvætt. En ekkert fyndið. Ég held að ég hafi bundið húmor minn við neikvæðni og fýlu. Ég verð eitthvað að endurskoða þetta og finna mér leið til að skrifa eitthvað sem er bæði í einu skemmtilegt og jákvætt. Þetta hlýtur að koma með æfingunni.

Pétur, kokkur á Hótel Búðum, bað fyrir kveðjur til umheimsins, sem ég lofaði að skila.

4 ummæli:

  1. Frábært að þið hafið haft það gott. Ég segi alltaf að tveir dagar á Búðum jafnist á við tvær vikur á sólarströnd!

    SvaraEyða
  2. en dásamlegt. við hjónin höfum látið okkur dreyma um að sækja hótel búðir heim á næstu morðgátuhelgi ef grísinn verður orðinn geymsluhæfur. vona að þér syngist vel í æfingabúðunum.

    SvaraEyða
  3. Fyndið, þá verður þú kannski að kenna Róberti næsta vetur. Líst vel á það.

    SvaraEyða
  4. Nafnlaus6:34 e.h.

    Sæl skvísa....meirháttar gaman að hitta þig og heyra þig syngja...miss twang gella...frábært hjá þér:)

    SvaraEyða