Það liggur við að það taki því ekki að tjá sig um nokkurn skapaðan hlut nú á öld háhraðans. Maður rétt bregður sér á snyrtinguna og þjóðfélaginu er umturnað á meðan. Því næst sest maður niður, klórar sér í hausnum og fær sér sopa af sterku kaffi.
Livet er ikke det værste man har, og um lidt er kaffen klar....
En ef maður vill geta sönglað þessa fallegu línu fyrir munni sér í friði er vissara að halda sig fjarri öllum fjölmiðlum, þeir hafa eintómar hasarfréttir að færa.
Skítalyktin frá miðbænum fyllir nú vit manns og fylgir manni út um allan bæ. Ef daunninn á ekki upptök sín inni á Alþingi, þá kemur hann úr Ráðhúsinu.
Er þetta til að útrýma trausti mínu á stjórnmálamönnum? Já. Já, þýðir já, því miður.
Nenni ekki að tjá mig frekar um þau mál, enda með grenjuna í hálsinum af annarri ástæðu.
Fyrir jól byrja góðgerðarsamtökin að safna peningum. Ég, eins og svo oft áður, gaf um efni fram, þrátt fyrir að hafa lofað sjálfri mér að læra að segja nei einhvern tíma á ævinni. Eftir áramót sjá öll fyrirtæki landsins fram á gúrkutíð fram undir páska og grípa því til örþrifaráða til að auka söluna. Undanfarna tvo daga hafa fjórir símasölumenn hringt í mig. Samt sem áður er ég, eins og margir aðrir ekkert syndandi í peningum svona rétt fyrir mánaða mót fyrir utan það að vera námsmaður. Sá fyrsti bauð áskrift að Gestgjafanum á einhverjum voðalegum kostakjörum sem ég man ekkert eftir. Ég sagði nei, en honum fannst ég ekki hafa fært fyrir neitun minni nógu haldbær rök til að afþakka með öllu og sagðist mundu hringja síðar.
Næsti sölumaður hélt ég að væri ekki beint að selja, hann spurði mig hvort ég yrði heima eftir kvöldmat á fimmtudaginn og ég játti því. Hann sagði að þá yrði á ferðinni sölumaður frá Forlaginu. "Nú, já?" sagði ég og maðurinn í símanum flýtti sér að kveðja áður en ég gat tjáð mig nokkuð frekar. Sölumannsgreyið gerði sér svo fýluferð hingað, ég var gerð að samviskulausri gribbu, en reyndi að rétta minn hlut með því að biðja manninn afsökunar, það var ekki hann sem hringdi. Svo hringdi tryggingakona. Davíð svaraði símanum í þetta skiptið, en konan spurði hvort við vildum lækka iðgjöldin á tryggingunum. Hann sagði "Nei, takk". Hún sagði: "Ha, viltu ekki spara pening?" Hann sagðist bara ekki nenna að fara að hræra í þessum málum, við erum búin að koma okkur ágætlega fyrir og förum ekkert á hausinn þótt við höldum viðskiptunum kyrrum á sama stað. Konan var mjög hneyksluð á þessari óráðsíu í okkur.
Svo hafa bankarnir hringt, einn af öðrum, reyndar bara þessir stærstu, til að bjóða mér betri kostakjör sem enginn getur staðist. Ég hef reynt að útskýra fyrir þeim að þegar ég þurfti á þessari "virku samkeppni" að halda sem ku vera við lýði milli bankanna, þá vildi enginn neitt fyrir mig gera nema viðskiptabankinn minn. Nú þegar ég er búin að greiða úr öllum mínum flækjum, fjármagna íbúðina og allt farið að sigla lygnan sjó, þá fæ ég engan frið. Hvað á það að þýða? Mér dettur náttúrulega ekki í hug að stinga eina bankann af sem gerði mér kleift að koma undir mig fótunum! Svo eru allir þessir sölumenn ýmist sármóðgaðir ef maður afþakkar, gera grín að manni eða reyna að tala mann til. Mér finnst nógu fjandi erfitt að segja einu sinni nei, því ég vorkenni alltaf öllum, en ef ég segði alltaf já, þá færi öll ævi mín í að bíða eftir nýjum debetkortum frá nýja viðskiptabankanum, ég væri ekki tryggð ef kviknaði í, því viðskiptin mín eru alltaf á leiðinni milli tryggingafélaga o.s.frv.
Af hverju er fólki ekki bara treyst til þess að sækja sér það sem það vantar, þegar það vantar það? Af hverju er verið að vasast í þessu öllu í símanum á kvöldin??? Lágmark að prenta út lista yfir þá sem eru á námslánum og sleppa því að hringja í þá.
Skrambans!
Ég fór í tvö leikhús um helgina, tjái mig um það síðar, þetta orðið of langt í dag.
Annars hef ég verið umvafin faðmi fjölskyldunnar undanfarið, mamma, Kristín Arna, Gréta og Sigurjón Torfi öll búin að koma í heimsókn og gista. Kristín Arna hvarf svo af landi brott á laugardaginn, við áttum notalega stund saman geispandi í bílnum kl. 5 um morguninn á leið í Leifsstöð. Þegar þangað kom féllum við svo á kné og tilbáðum nýopnað útibú Kaffitárs og keyptum okkur kaffi og mat og meððí. Ég hef beðið þess í mörg ár eftir að á Leifsstöð opnaði kaffihús sem opið væri bæði fyrir þá sem skutla og þá sem fara. Þegar ég fer sjálf út, þá nenni ég nefnilega aldrei í fríhöfnina og finnst miklu skemmtilegra að kjafta bara við þann sem skutlar mér. Salút!
Nú erum við ein heima í kotinu, eins gott að fara að læra, enda mánudagur á morgun.
Ég segi þessum glundroðapistli því slitið og sendi ykkur öllum lesendum mínum ástleitinn fingurkoss, með óskum um að áður en langt um líði hitti ég ykkur augliti til auglitis.
Þeir hringdu tvisvar í mig frá Gestgjafanum, hafa sennilega treyst því að ég væri gömul og kölkuð og hefði sagt nei.
SvaraEyðaÞað er nú allt í lagi þegar fólk sem hringir kann mannasiði, en ef menn geta ekki skilið "nei takk ég hef ekki áhuga" þá eru þeir búnir að gefa skotleyfi á sig og maður þarf ekkert að eyða tímanum í að tala við símasölumenn. "Ég sagði nei, og troddu því inn í hausinn á þér".
Kv. RÁ
Allt svo að ég hefði gleymt því að ég sagði nei.
SvaraEyðaRÁ
X-merking í símaskránni og afskráning hjá Hagstofunni virkar ansi vel, það er bara eiginlega aldrei hringt hingað, bara bankinn sem þykist mega kynna viðskiptavinum sínum einhver tilboð en ég er yfirleitt ansi fljót að segja kuldalega: Þú veist að þú mátt ekki hringja í mig! Held að síðast hafi hún skráð það í einhvern grunn hjá sér, ekki verið hringt ansi lengi, núna.
SvaraEyða