Fannst engum skítapakkið fyndið? Jæja, ég sit þá bara ein og hlæ og skammast mín ekkert fyrir það.
Í gær var föstudagur af einkennilegra taginu. Venjulega vakna ég eldsnemma á föstudögum til að ná að æfa mig og læra fyrir lengsta skóladag vikunnar sem hefst kl. 13:30 á tónbókmenntum hjá Gunnsteini. Sá tími stendur í tvær klukkustundir og við tekur (með engu kaffihléi í millum því Gunnsteinn er á móti kaffi) hljómsveitarstjórn hjá sama kennara kl. 15:30-17:30. Ég get ekki útskýrt hvað ég var glöð þegar ég mætti í fyrsta hljómsveitarstjórnunartímann og komst að því að 0% kennslunnar er í fyrirlestrarformi, svo það var lítið mál að fyrirgefa tímasetninguna, en eins og allir vita er mjög óhollt að vera í tíma eftir kl. 15:00 á föstudögum. Heilinn hefur meðtekið fylli sína frir vikuna og meira kemst ekki inn. Slagtæknin er bara eins og leikfimiæfingar í takt við tónlist. Og kannski eitthvað aðeins meira... En hvað um það, í gær var frí í skólanum, mætti e.t.v. kalla það upplestrarfrí, því næsta föstudag er tónbókmenntaprófið. Hljómsveitarstjórnunarprófinu frestuðu skólastjórarnir til haustsins, sem og tónsmíðatónleikunum, þannig að ég fæ að dingla mér eitthvað í Tónó í haust þrátt fyrir að vera formlega ekki í skólanum. Fráhvarfseinkennin ættu því að verða meinlítil.
Þriðja tilraun til að koma mér að efninu: Í gær fór ég sumsé frekar seint á fætur, því fyrir lá að ég fylgdi mínum fyrsta nemanda í prófanefndarpróf. Ég hef sjálf aldrei tekið prófanefndarpróf, enda prófanefnd ekki til þegar ég vasaðist í stigsprófum fyrir svo löngu síðan að ég fæ andlegt mein þegar ég hugsa um það. Stelpan mín stóð sig vel og nýtískustigsprófið lítið frábrugðið gömlu stigsprófunum. Ég skoraði mark hjá prófdómaranum sem afþakkaði kaffi þegar ég bauðst til að brugga handa honum lífrænt jurtaseiði, enda alltaf með bakpokan fullan af magróbíótískum tegræjum. Hann fyrirgefur mér þá vonandi að hafa mislesið eina leiðbeiningu og ruglast aðeins í hita undirbúningsins.
Eftir stigsprófið hljóp ég út á strætóstopp og heim í dauðans angist, því ég hafði gleymt að skila próförkinni af Hor, blóð- og bullumsullbókinni sem kemur út í sumarlok. Þarf vart að taka það fram að hún er eftir sömu höfunda og Slummu, slepju, slef- og klísturbókin. Þetta marðist allt um hádegið, en þá kom pósturinn með bréfin. Meðal bréfa var eitt frá Listaháskólanum sem tilkynnti mér að þeir ættu fyrir mig pláss í haust.
Það var gaman en hafði þá aukaverkun að ég nennti ekki baun meir. Þeir eru sumsé búnir að segja mér hvaða kúrsa ég fái metna af þeim sem ég er búin með og hvorugur kúrsanna sem ég er núna að vasast í er þeirra á meðal. En mér finnst samt ekki hægt að klára þá ekki þar sem ég hef mætt í alla tíma í vetur og á bara lokaprófið eftir. Nennan er samt eftir sem áður afar lítil.
En nú bíða ný ævintýri, þrjú ár til viðbótar í námi og þá hugsanlega B.A. gráða í augnsýn áður en of langt um líður. Að því loknu meira nám í útlöndum ef það er hægt. Svo kemst maður varla upp með annað en að tryggja sig með kennararéttindum ofan á allt saman. Verst að ég verð örugglega komin á aldur þegar kemur að því...
Til hamingju með plássið! En svakalega skemmtilegt!
SvaraEyðaTil hamingju kæra frænka. Mér skilst að metaðsókn hafi verið í tónlistardeildirnar í LHÍ þetta árið svo þú ert greinilega alveg hreint framúrskarandi. Ullarsokkar eru komnir aftur í tísku.
SvaraEyðaPS.
Eilífðarstúdentar allra landa sameinist!
Gunnhildur
Innilega til hamingju með plássið kæra vinkona!
SvaraEyðaMagnaðar hamingjuóskir með inngönguna. Kannski ertu bara pervertískt skólafrík með sérstaka áherslu á íslenskan lopa!!
SvaraEyðaTil hamingju mín kæra Þórunn Gréta :) Hlakka til að koma í heimsókn þegar ég á næst leið í bæinn..
SvaraEyðaMazeltov!
SvaraEyðaOg úr því að þú ert á línunni - af hverju er ég ekki undir Norðurland í blogglistanum, húsvíkingurinn sjálfur?
Frábært! Innilega til hamingju:)
SvaraEyða