Plön eru breytileg fyrirbæri, þannig skilgreini ég þau alla vega.
Framhaldsprófið er dottið uppfyrir. Sónatan hékk á bláþræði, blessunin. Bömmer, en ég er nú samt bara hress. Ég tók nefnilega þá ákvörðun að venja mig af samviskubitum eins og hverjum öðrum kæk. Samviskubit eru banvæn bit.
Inntökuprófið í Listaháskólan fór friðsamlega fram. Eftir að hafa skilað inn möppu og tekið stöðupróf í tónfræðigreinum var mér boðið í viðtal. Mér var vísað til sætis í stól sem staðsettur var á miðju gólfi frammi fyrir sex mönnum sem sátu við borð og virtust skrifa hjá sér svörin við þeim spurningum sem þeir lögðu fyrir mig. Ég sagði satt og rétt frá því að ég kynni ekkert á tölvur og varðandi græjukunnáttu, þá þekki ég djakksnúrur frá millistykkjum og kann að tengja rafmagnshljóðfæri í magnara. Svo hef ég tæplega lágmarksþekkingu á nótnaskriftarforrit. Með öðrum orðum hreinræktaður ullarsokkur. Ekki í fyrsta skipti sem sú nafngift á við mig. Ósjálfrátt leit ég á fæturna á mér og gáði hvort ég væri nokkuð í sauðskinnsskóm í ofan á lag. Það slapp til, en fóðruðu skinnbomsurnar mínar minna óneitanlega á sauðskinnsskó. Loðhúfan lá í kjöltu minni svo mig vantaði bara ullarkambana og nokkra vel valda húsganga. Þá hefði ég getað kveðið rímur upp á gamla mátann. Þá fyrst hefði ég skorað mark hjá sexmenningunum.
En sumsé, nú er bara að bíða og sjá.
Bless á meðan.
Samviskubit er innbyggt í og samgróið við okkur konur. Við þurfum að vinna sérstaklega með samviskubitið þegar við ræktum sjálfar okkur.
SvaraEyðaEn mér líst vel á þessa lýsingu á þér í inntökuprófinu. Ef það er ekki einmitt þetta sem listaskólinn þarf þá veit ég ekki hvað. Það kunna allir á tölvur, það vita allir allt um öll hugsanleg rafmagnstæki svo það hlýtur að vera listinni til framdráttar að fá einn jarðbundinn og þjóðlegan ullarsokk sem hugsar í tónum en ekki amperum og megabætum.
Gangi þér vel gæskan mín.
Rannveig Árna
þú flýgur inn :D
SvaraEyða(og nei, ég er ekki að giska...)
Krossa fingur.
SvaraEyðaIss, samkvæmt þessari lýsingu er ég viss um að þú hefur slegið í gegn í viðtalinu og flýgur inn! Hvenær færðu að vita?
SvaraEyðaGangi þér vel...
SvaraEyða