laugardagur, ágúst 09, 2008

Gay Pride

Í dag er gleðigangan. Ég sakna Unnars Geirs mest í dag, við höfum yfirleitt verið einhvern veginn "samfó" í göngunni... yfirleitt týnt hvort öðru fljótt og örugglega en aldrei varanlega. Hann á svo afmæli á morgun.

Ætli Hugleikarar geti ekkert látið til sín taka þarna úti í Riga? Til hamingju annars, Hrefna og Hugleikur með Bingó!

Ég borgaði félagsgjöld til Íslandsdeildar Amnesty International í gær, hef lengi verið á leiðinni í þessi samtök en alltaf gleymt að skrá mig. Ekki margar afsakanir, sérlegur sambýlismaður minn er formaður deildarinnar. En á hinsegin dögum er maður minntur á mannréttindin og þegar fréttin um réttindaleysi samkynhneigðra þarna við Eystrasaltið birtust í blöðunum tók ég strax upp símann og heimtaði að vera með.

Mitt er þitt og þitt er mitt, þú veist hvað ég meina.... Ef ég vil sjálf njóta mannréttinda verð ég að stuðla að því að allir njóti mannréttinda. Lög sem gilda bara um suma í þjóðfélaginu en ekki alla eru ólög. Gildir jafnt um ívilnandi lög sem íþyngjandi.

Gleðigöngudagurinn er dagur ástarinnar. Á Gay Pride 2005 fór ég á stefnumót sem enn hefur ekki tekið enda. Við vorum að velta því fyrir okkur um daginn hvort samkynhneigðir á Íslandi myndu nokkur kæra okkur fyrir að vera á ská við málstaðinn með því að hefja gagnkynhneigt samband á stærsta hátíðisdegi samkynhneigðra hér á landi. Þannegin samband á hinsegin dögum.

En ég er á því að það eigi ekkert að vera þannegin eða hinsegin neitt. Við erum bara fólk og fordómar í garð samkynhneigðra eru í besta falli pervertískir. Það sem skilur mig frá samkynhneigðum eru hlutir sem skipta ekki máli og koma mér ekki við.

Til hamingju með daginn, góðir Íslendingar!

6 ummæli:

  1. Nafnlaus10:27 e.h.

    Vel orðað!

    SvaraEyða
  2. Í Riga er gangan á öðrum tíma og undir lögregluvernd. Það er ekki hægt að hleypa neinum "almennum borgurum" að henni vegna þess að nokkurhundruð manns safnast jafnan saman og mótmæla henni. Þeir hafa sín samtök sem heita No Pride og eru fordómafullir fábjánar.

    Við erum gríðarlega heppin með svo margt í tilvist okkar hér á Íslandi að maður bara fattar það ekki. Smá tripp austur fyrir járntjaldið fyrrverandi geta þó hjálpað aðeins til.

    SvaraEyða
  3. Nafnlaus11:01 e.h.

    Takk fyrir síðast. Gaman að hitta ykkur í gleðigöngu. Ég hefði nú óskað ykkur til lukku hefði ég vitað að þetta væri svona spes dagur hjá ykkur - ekki nema von að Davíð Þór væri á leiðinni með þig í Bónus til að bjóða þér drykk :) það hefur verið í tilefni dagsins.
    kveðja
    Rannveig Árna

    SvaraEyða
  4. Nafnlaus7:19 f.h.

    Eins og þetta er nú skrautlegt og skemmtilegt allt saman, þá finnst mér ponkulítið skrýtið innlegg í mannréttindabaráttu að flagga klisjukenndum staðalmyndum. Dálítið eins og ef svartir myndu berjast gegn aðskilnaðarstefnu með því að fara í strápils og fá sér bein í miðnesið.

    SvaraEyða
  5. Hihi, Eva, ég var einmitt að velta þessum punkti fyrir mér þegar ég skrifaði pistilinn.. en svo fór ég að spá í að hluti af þessu er kannski einmitt að frelsa steríótýpuna.. sumir eru steríótýpur og eiga að sjálfsögðu að njóta mannréttinda á við aðra þrátt fyrir það. Leðurhommar, trukkalessur, barbíhommar, allrahanda hommar og lessur eru líka fólk!! Ef svertingi vill ganga í strápilsi með bein í miðnesinu, þá á hann bara að gera það, hvort sem það er í skrúðgöngu, mótmælagöngu eða annars staðar..

    SvaraEyða