Ég vinn með námi. Alveg eins og Gísli Marteinn. Að vísu er ég á launum sem tónlistarkennari IV í 43% stöðu en Gísli Marteinn sem varaforseti borgarstjórnar.
Segjum sem svo að ég hafi boðið mig fram til að sinna ábyrgðarstöðu í þágu tónlistarnema 15 ára og yngri og þau hefðu kosið mig til þess. Ég hefði lagt allt í sölurnar, þar með talið mannorð mitt, til að halda mínum flokki einráðum og dreymdi um gömlu góðu 60 árin í röð þar sem minn flokkur hafði hreinan meirihluta í málefnum tónlistarnema. Svo hefði allt gengið hálf asnalega fyrir sig svo mér finnst ekkert skemmtilegt að vera alltaf í þessu, svo ég ákveð að skella mér í nám til útlanda. Ég lít á málið sem svo að ég sé algerlega ómissandi og get því ekki tekið mér ársleyfi frá störfum. Ég ákveð að sinna vinnunni eins vel og ég get milli landa. Öll af vilja gerð. Ég fatta ekki alveg að ég mun aldrei geta sinnt henni jafn vel og ef ég er á staðnum, t.d. vegna þess að nám er vinna.
Ég get ekki haldið áfram með þessa dæmisögu, vegna þess að enn er því ósvarað hvort Gísli Marteinn stendur sjálfur straum af ferðakostnaði milli Skotlands og Íslands til fundarsetu tvisvar í mánuði (eða eins oft og hann getur), en ég efast um það. Ef hann gerir það, þá fer bróðurparturinn af laununum hans trúlega í flugfargjöld. Ef ekki, þá er þetta afar hagstæð leið fyrir hann til að fjármagna námið sitt, enda skólagjöld í Bretlandi með hæsta móti.
"Við munum taka á bágri fjárhagsstöðu borgarinnar pólitískt" sagði Hanna Birna þegar hún tók við lyklinum að borgarstjóraskrifstofunni. Hún sagði þessi skyndilegu blankheit skýrast af sömu ástæðum og almenna bága fjárhagsstöðu í landinu.
Ég leyfi mér að álykta að flestir á landinu sem staddir eru í skyndilegum fjárhagskröggum á þessum verðbólgutímum núna hafa komið sér þangað sjálfir með því að eyða um efni fram. Hinir, sem berjast í bökkum af öðrum ástæðum, þeir voru byrjaðir á því löngu áður en þessi verðbólga hófst.
Þetta er þá trúlega í fyrsta skipti sem ég er sammála Hönnu Birnu. Blankheit Reykjavíkurborgar skýrast af einni einfaldri ástæðu eins og almenn blankheit á Íslandi. Bruðli. Trúlega metbruðli á einu kjörtímabili. Fjórir borgarstjórar á launum, borgarfulltrúar ferðast milli landa nokkrum sinnum í mánuði.. er ég að gleyma einhverju?? Mér þætti gaman að sjá samanburðarútreikninga.
Ég las í Fréttablaðinu fyrir nokkrum dögum viðtal við forsvarsmenn einhverrar fjármálaráðgjafarþjónustu þar sem fram kemur að fólk með upp í eina og hálfa milljón í tekjur á mánuði sé komið í fjárhagsvandræði og sé að sligast af áhyggjum. Átti ég að fá kökk í hálsinn?? Fyrirgefið mér, en ég get ómögulega komið auga á alvarleika málsins.
Hins vegar er öllu alvarlega þegar bruðlað er með almannafé og eins gott að til standi að taka á málunum pólitískt.
Getur einhver útskýrt fyrir mér hvað það er að taka pólitískt á fjárhagsvanda?
Að lokum mæli ég með bakþönkum dagsins í dag aftan á Fréttablaðinu. Salút, Bergsteinn Sigurðsson!
Kannski aetti sigraena natturuvaena Island lika ad ihuga unsustainability-id af tessum flugferdum hr. Marteins. Jafnvel ad taka politiskt a tvi mali! K
SvaraEyða