Haustið er tími breytinga og umskipta í náttúrunni. Í minni eigin náttúru og fjölskyldunnar hafa undanfarin haust haft í för með sér stór og mikil umskipti. Jafnvel umpólun á köflum. Í nóvember 2006 fékk afi á Skipalæk heilablóðfall og var eftir það bundinn við hjólastól. Í nóvember 2007 lést pabbi minn sviplega.
Haustið 2008 rann upp og merkilegt nokk, þá tók ég haustinu jafnvel enn opnari örmum en áður. Sumrin eru alltaf hálf manísk finnst mér, en haustin tími jafnvægis. Mér fannst ég fljóta inn í haustið dansandi á línunni milli yin og yan. Þó örlaði stundum á óæskilegri meðvitund um haustin tvö sem á undan voru gengin og það sem þau báru í skauti.
Fyrsta árs nemar í tónlistardeild Listaháskólans voru sendir á námskeið í Skálholt 4.-9. október eða þar um bil. Þar var ekkert sjónvarp, ekkert útvarp, engin blöð og allir of uppteknir til að bera sig eitthvað eftir fréttum af umheiminum. Ég kom heim og spurði Davíð: Jæja, gerðist eitthvað á meðan ég var í burtu? Hann svaraði: Jaaa, bankakerfið virðist vera hrunið og allir eru brjálæðir. Ég sagði þá: Pfffff, ef það er mótbyr haustsins 2008 þarf ég ekki að kvarta.
Nú er haustið 2009. Þá kvaddi afi minn á Skipalæk. Feðgarnir Sigurður og Grétar hvíla nú hlið við hlið undir Ekkjufellinu.
Að lokum eftir langan, þungan dag,
er leið þín öll. Þú sest á stein við veginn,
og horfir skyggnum augum yfir sviðið,
eitt andartak.
Og þú munt minnast þess,
að eitt sinn, eitt sinn, endur fyrir löngu
lagðir þú upp frá þessum sama stað.
Steinn Steinarr
Ég er voðalega léleg í dauðanum. Votta þér og þínum samúð mína en kann svosem ekki að segja neitt viðeigandi.
SvaraEyðaSamhryggist þér elsku Þórunn Gréta, vonandi verða komandi haust bjartari hjá þér.
SvaraEyða